Byrjunin

Það er hann sonur minn Guðmundur Helgi Rósuson sem vann og er að vinna þessa síðu. Það gleður mig mjög að hann skuli nenna að gera þetta fyrir mig. En það líka áskorun á mig að hætta öllu hangsi og gera drauminn að veruleika. Drauminn um að skrifa. Ég hef komist að því að það er auðvelt að láta sig dreyma en erfiðara að trúa því að draumurinn geti orðið að veruleika. Ég hef staðið mig að því að hangsa og taka önnur verkefni fram yfir þennan draum lengi ,lengi, reyndar mjög lengi. Ég ætla alltaf að skrifa á hverjum degi en svo liggja fyrir alls konar verkefni sem mér finnst ég endilega þurfa að ljúka fyrst. Svona plata ég mig. Ég hef komist að því að grundvallar ástæða þess að ég skrifa ekki er djúp vantrú á getu mína til þess. Þessi vantrú liggur í mér er hluti af mér. Hún dvelst fyrst og fremst í sjálfri mér 9 ára gamalli. það var þá sem ég gaf skít í lífið. Það var þá sem ég missti trúna á fólki og vissi ekki að um leið missti ég trú á sjálfri mér. Góður vinur minn spurði mig í gær spurningar sem ég hef íhugað: „Afhverju lestu ekki nýja ævintýrið þitt fyrir þessa 9 ára þig?“

“ já, góð hugmynd“ svaraði ég en hugsaði : “ vinur minn þú veist ekki hvað þú ert að leggja til. Maður les ekki fyrir slíka stelpu. Hún myndi tæta niður textann minn. Meðhöndla hann að slíkri grimmd að ég myndi örugglega grenja undan því“. En eftir því sem ég hugsa frekar um þessa ráðleggingu vinar mína, finnst mér hún nokkuð góð og er að verða alveg til í að gera þetta. Alla vega get ég verið viss um að enginn bókmenntagagnrýnandi heimsins, myndi sýna textanum meiri grimmd. þetta er að auki góð hugmynd til samskipta við þessa hlið persónuleika míns. Ég hef forðast hana, eins og heitan eldinn og gert í því að halda henni niðri. Því eitt má segja um þessa stelpu en það er:Hún var hrein og bein og kom til dyranna eins og hún var klædd. Auk þess að vera hugrökk. Nógu hugrökk til að horfast í augu við mistök fullorðinna og heita því að endurtaka þau ekki.

Svo frá og með 1.júlí 2021 les ég allan texta sem ég skrifa fyrir þessa 9 ára mig í leit að heiðarlegu áliti með ívafi sjálfsfyrirlitningar.